Í Breiðdal…
Fossinn Beljandi
Skammt fyrir utan bæinn Brekkuborg er fossinn Beljandi í Breiðdalsá. Raunar eru fossarnir tveir, ytri og innri, og samnefndir hylir við. Þetta er mjög fagurt svæði og skemmtilegt til útivistar.
Breiðdalseldstöðin
Breiðdalseldisstöð er forn megineldstöð í Breiðdal og Berufirði, vettvangur ítarlegra rannsókna enska jarðfræðingsins Georges D.L. Walker, ásamt öðrum slíkum á Austurlandi. Þessi eldstöð er prýdd stórum ríólít-innskotum með tignarlegum og sérstæðum tindum, Flögutindi í Breiðdal, Smátindum, Röndólfi, Slötti og Stöng. Suðurhlíðar Breiðdals eru sérstaklega litskrúðugar og berglögin óregluleg, sett miklum gjóskumyndunum. nánari upplýsingar smellið hér
Breiðdalsá
Breiðdalsá er ákaflega falleg 6 – 8 stanga laxveiðiá í um 615 km fjarlægð frá Reykjavík og í um 80 km fjarlægð frá Egisstöðum.
Áin á upptök sín til fjalla þar sem lækir tínast saman og verður svo til þar sem Tinnudalsá, Suðurdalssá, og Norðurdalsá renna saman, og rennur hún svo til sjávar hjá Breiðdalsvík.
Umhverfi Breiðdalsár er stórbrotið og sagt er að menn veiði óvíða í eins fallegri á en Breiðdalsá. Nánari upplýsingar um veiði í Breiðdalsá fást með því að smella hér
Jórvíkurskógur
Jórvík í Breiðdal er eyðibýli með stórum kjarrlendum. Um 600 ha eru í eigu Skógræktarinnar en skógurinn var friðaður 1960. Hér er einn af fáum fundarstöðum blæaspar á landinu og eru hæstu trén um 4 m. Landið er annars að mestu vaxið náttúrulegu birkikjarri en gróðursettum skógi að hluta. Svæðið er opið almenningi og merkt gönguleið er frá Jórvík yfir í Norðurdal.
Meleyri
Meleyri nefnist falleg strönd fyrir innan þorpið Breiðdalsvík. Svæðið hentar vel til gönguferða og útivistar og þar er ríkulegt fuglalíf.
Flögufoss
Flögufoss er hæsti foss í Breiðdal um 60 m. Fossinn er í Flöguá sem rennur um Flögudal. Dalurinn sá afmarkast af Smátindum og Slötti. Frá vegi er stutt og létt gönguleið að fossinum.
Streitishvarf
Fallegt útsýni er frá Streitisvita, sunnan Breiðdals, út yfir hafið og skemmtileg merkt gönguleið liggur fyrir streitishvarf. Þetta er útivistarssvæði fyrir alla fjölskylduna.
Breiðdalssetur (Gamla Kaupfélagið)
Breiðdalssetur – Jarðfræðasafn G.P.L.Walker hýsir starfsemi af þrennum toga: Jarðfræðisetur þar sem rannsóknir og fræðistörf enska jarðfræðingsins G. Pl. Walkers eru höfð í hávegum en hann sinnti ötullega rannsóknum á jarðfræði svæðisins, málvísindasetur til heiðurs dr. Stefáni Einarssyni og rannsóknum hans á íslenskri tungu og loks byggðasafn helgað Breiðdalsvík og byggðunum í kring. Breiðdalssetur er í Gamla Kaupfélaginu á Breiðdalsvík, elsta húsið í þorpinu, byggt árið 1906.
Heydalakirkja
Kirkja hefur verið að Eydölum frá fyrstu tíð kristni. Prestsetrið hefur löngum verið með betri brauðum og þar hafa setið margir vel metnir prestar. Frægastir þeirra er sálmaskáldið sr. Einar Sigurðsson (1538-1626) sem kunnastur er fyrir jólasálminn Kvæði af stallinum Kristí sem kallast Vöggukvæði, en er nútímamönnum tamast sem Nóttin var sú ágæt ein. Minnisvarði um sr. Einar stendur á grunni gömlu kirkjunnar í kirkjugarðinum að Eydölum.