Hótel Breiðdalsvík – sjálfbærni-, umhverfis- & starfsmannastefna –
ábyrg ferðaþjónusta & öryggismál
Við gerð þessarar stefnu var horft til gilda Hótels Breiðdalsvík sem eru; „metnaður, gleði og framúrskarandi þjónusta í sátt við umhverfið“.
Hótel Breiðdalsvík leggur mikla áherslu á að stunda ábyrga starfsemi í hvíetna. Það er mikil ábyrgð fólgin í því að stunda atvinnustarfsemi ekki einungis gagnvart eigendum fyrirtækisins heldur einnig gagnvart starfsfólki, gestunum okkar, samfélaginu og ekki síst umhverfinu en þetta er fjórar megin stoðir ábyrgrar ferðaþjónustu.
Hótel Breiðdalsvík hefur sett sér skýra stefnu þegar kemur að sjálfbærni með hringrásarhagkerfið að leiðarljósi.
Þrjár megin stoðir sjálfbærni eru umhverfið, efnahagurinn og samfélagið. Sjálfbærni er hugtak sem við sem jarðarbúar þurfum að temja okkur meira í gjörðum hversdagsins. Mikilvægi ábyrgðar á gjörðum okkar hefur aldrei verið meiri gagvart náttúrunni og umhverfi okkar. Loftslagsbreytingar af mannavöldum hafa aukist mikið á undanförnum árum og nú eru aðgerðir til að sporna við losun gróðurhúsalofttegunda mikilvægari en nokkru sinni fyrr.
Sjálfbærni gengur út á að nýta það sem í boði er án þess að það hafi skaðleg áhrif á jörðina. Fyrirtæki, stofnanir og aðrar skipulagsheildir axli ábyrgð á gjörðum sínum og hafi uppbyggileg áhrif á umhverfið, samfélagið og stjórnarhætti. Ábyrgðin gengur m.a. út á að koma fram með þeim hætti að næsta kynslóð geti einnig notið góðs af sameiginlegum auðlindum og samfélaginu semsagt vera samfélagslega ábyrg.
Hringrásarhagkerfið
Núverandi línuleg aðlindanotkun miðar að því að framleiða-kaupa-nota-henda-kaupa nýtt, sem er ósjálfbær nálgun. Á meðan hringrásarhagkerfið miðar að því að hanna í burtu allan úrgang, mengun og halda hráefni og vörum í notkun og endurnýja þannig vistkerfin með öðrum orðum leitast við að halda hráefni frá því að verða úrgangur og halda því lengur inn í virðiskeðjunni. (Circular Economy – UK, USA, Europe, Asia & South America – The Ellen MacArthur Foundation, e.d.)
Fiðrildamódelið er góð leið til að útskýra hvernig hringrásarhagkerfið virkar. Miðja myndarinnar táknar hið hefðbunda línulega módel þar sem auðlindir eru nýttar til að framleiða vöru, hún flutt, seld og að lokum fargað, oftar en ekki á ruslahaugana. Módelið skiptist í tvennt; lífrænan hluta og ólífrænan hluta.
Heimsmarkmið sameinuðu þjóðanna
Sameinuðu þjóðirnar settu fram sautján markmið árið 2015 sem þau kalla heimsmarkmið um sjálfbæra þróun, sem gilda frá 2016-2030. Þessi sautján markmið eru svo með 169 undirmarkmið sem taka bæði til innanlandsmála sem og alþjóðasamstarfs.
Markmiðin fjalla um jafnvægi milli hinna efnahagslegu, félagslegu og umhverfislegu stoða sjálfbærrar þróunar. Meginefni markmiðana eru fimm þ.e. mannkynið, jörðin, hagsæld, friður og samstarf þar sem aðalinntakið er að engir einstaklingar og eða hópar verði skildir eftir. Með heimsmarkmiðunum er sett fram sú stefna að að líf allra og umhverfi muni batna til muna fyrir árið 2030.
Sjálfbærni & ábyrgð
Samfélagsábyrgð, starfsfólk & efnahagur
(heimsmarkmið nr. 3, 4, 5,8,9)
Hótel Breiðdalsvík leggur áherslu á að laða að sér hæft og gott starfsfólk sem býr yfir ákveðnum eiginleikum sem falla vel að markmiðum, starfsemi og stefnum fyrirtækisins. Hótel Breiðdalsvík hefur það að leiðarljósi að búa starfsfólki góðan vinnustað með metnaðarfullri starfsmannastefnu, og verða þannig eftirsóttur vinnustaður. Starfsmenn vita hvar áherslan liggur innan fyrirtækisins, til hvers er ætlast af þeim og stjórnendum þeirra. Með því að huga vel að mannauð hótelsins og móta stefnu um hann, aukast líkur á að starfsmenn vinni að sameiginlegum markmiðum sem skilar sér í aukinni starfsánægju sem eykur líkur á hærra þjónustustigi.
Liðsheild og starfsgleði
Starfsfólk leggur sig fram í að vinna sem ein heild með því að styðja hvert annað. Lögð er áhersla á jákvæðan og góðan starfsanda milli starfsfólks og það sýni hvert öðru virðingu, traust, trúnað og vinsemd. Allir geta eitthvað en engin getur allt. Góður starfsandi og að starfsmenn vinni sem ein heild er mikilvægur þáttur í því að geta veitt góða þjónustu. Vinsemd og virðing á milli starfsmanna er mikilvæg í því skrefi að stuðla að góðum starfsanda.
Styðja við starfsfólk
Starfsfólk er mikilvægasta auðlind hótelsins. Áhersla er lögð á jafnrétti, réttindi starfsfólks eru virt og komið er fram við starfsfólk af virðingu. Mismunun, einelti eða hvers konar áreitni eru ekki liðin, hvorki af hendi samstarfsfólks né viðskiptavina. Stutt er við starfsfólk í heilsueflingu og heilbrigði. Allir starfsmenn gegna mikilvægu hlutverki í starfi sínu og er hvatt til ábyrgðar og frumkvæðis.
Skýr afstaða í jafnréttismálum er mikilvæg og er partur af samfélagslegri ábyrgð hótelsins. Mikill ávinningur er af því að styðja starfsfólk til heilsueflingar þar sem það hefur sýnt sig meðal annars í færri veikindadögum. Starfsánægja eykst hjá fólki sem finnur fyrir trausti frá yfirmönnum og að rými sé til ábyrgðar og frumkvæðis. Ætlast er til að starfsfólk veiti framúrskarandi þjónustu án þess þó að þurfa að þola mismunun eða annars konar áreiti.
Vanda ráðningarferli og þjálfa nýliða á árangursríkan hátt
Lögð er áhersla á að ráða inn starfsfólk úr heimabyggð þegar þess gefst kostur. Ráðningarferlið er vandað þar sem farið er eftir hæfni, menntun, reynslu og viðhorfum. Jafnréttis er gætt við ráðningar. Vel er tekið á móti nýjum starfsmönnum og er þeim kynnt almenn starfsemi og stefnur hótelsins.
Með því að ráða fólk úr heimabyggð gefst tækifæri á að styrkja atvinnuuppbyggingu á svæðinu auk þess sem gott er að hafa góða þekkingu heimafólks á svæðinu og staðháttum. Til að hafa ráðningarferlið faglegt og hlutlaust, er stuðst við stöðluð starfsviðtöl og svara öllum umsækjendum þegar búið er að ganga frá ráðningu. Þá er lagt upp með að hafa starfslýsingar fyrir helstu störf. Góð þjálfun eykur líkur á betri þekkingu og þar með betri þjónustu sem veitt er á hótelinu. Gátlistar eru fyrir móttöku nýrra starfsmanna og skjala hvaða þætti er nauðsynlegt að fara yfir, eins og áherslur í umhverfismálum.
Leggja áherslu á öryggismál
Starfsmönnum er kynnt mikilvægi öryggismála og jafnframt lagt að þeim að fylgja þeim kröfum eru gerðar til þeirra. Áhersla er lögð á að starfsmenn upplýsi ferðamenn um öryggismál og mögulegar hættur í
umhverfinu, hvort sem er á hótelinu eða í nágrenninu.
Allir starfsmenn skulu fá kynningu og fræðslu á öryggismálum hótelsins, svo sem varðandi mögulegar hættur, brunavarnir, neyðarútganga, hjartastuðtæki og annað. Mikilvægt er að allir starfsmenn viti hvar leiðbeiningar og hjálpartæki er að finna og hvernig eigi að nota þau. Allir starfsmenn í framlínu eiga að kynna sér Öryggisáætlanir fyrirtækisins. Allir lykilstarfsmenn skulu þjálfaðir í skyndihjálp. Starfsmenn þurfa að vita hvernig bregðast skal við til dæmis ef brunabjalla fer í gang, hvar hjálpartæki eru staðsett og annað tengt öryggismálum.
Veita framúrskarandi þjónustu
Viðskiptavinum er veitt framúrskarandi þjónusta þar sem áhersla er lögð á að vera ávallt til staðar fyrir þá. Tekið er vel á móti öllum viðskiptavinum með þægilegu viðmóti. Mikilvægt er að starfsfólk þekki svæðið og umhverfið vel og geti leiðbeint viðskiptavinum varðandi afþreyingu, útivist og annað á svæðinu.
Hótelið hefur fengið góða umsögn fyrir þjónustu og gott viðmót starfsmanna. Mikilvægt er að halda í og byggja áfram á þeim styrkleika. Með því að starfsmenn þekki umhverfið og afþreyingu á svæðinu vel er hægt að veita góða þjónustu og fara fram úr væntingum viðskiptavina. Það eykur líkur á að viðskiptavinir dvelji lengur á hótelinu og bætir orðspor þess.
Samfélagið og nærumhverfi
Hótel Breiðdalsvík leggur ríka áherslu á að styðja við samfélagið & nærumhverfið með því að styðja við ýmiskonar félagsstarf. Hótel Breiðdalsvík verslar við fyrirtæki í heimabyggð og nærumhverfi eins og hægt er hverju sinni.
Umhverfið & ábyrg neysla
(heimsmarkmið nr. 6,7, 9, 12,13,14,15)
Samfélagsleg ábyrgð felst meðal annars í því að fyrirtæki axli ábyrgð á þeim áhrifum sem þau hafa á fólk og umhverfið, en það getur haft veruleg neikvæð áhrif á rekstrarumhverfið ef hótelið axlar ekki þá ábyrgð. Það er því mikill ávinningur fyrir Hótel Breiðdalsvík að neytendur og væntanlegir gestir geti haft aðgang að og kynnt sér hverjar eru helstu áherslur hótelsins þegar kemur að umhverfismálum.
Auk heldur byggir framtíð hótelsins að miklu leyti á hreinni og ósnortinni náttúru þar sem nærumhverfið spilar lykilhlutverk í þjónustu þess. Kannanir sýna að flestir sem ferðast til Íslands koma náttúrunnar vegna og því er til mikils að vinna fyrir hótel að stunda umhverfisvæna ferðamennsku. Með virkri umhverfisstefnu er Hótel Breiðdalsvík ekki einungis að hafa jákvæð áhrif á umhverfið heldur getur einnig í því falist mikið rekstrarhagræði í starfseminni sjálfri, til dæmis í formi minni sóunar og orkusparnaðar.
Allir starfsmenn bera ábyrgð á að hótelið og umhverfi þess sé ætíð snyrtilegt og hreint. Áhersla er lögð á að starfsmenn vinni að markmiðum umhverfisstefnu hótelsins og sýni gott fordæmi.
Ásýnd hótelsins og umhverfi þess er það fyrsta sem viðskiptavinir sjá og er fyrsta upplifun þeirra af dvölinni. Því er mikilvægt strax í upphafi að skapa réttu stemminguna. Með því að gæta þess að umhverfið sé laust við rusl og annað því um líkt, má auk þess minnka líkur á óhöppum viðskiptavina. Mikilvægt er að starfsmenn hótelsins sýni gott fordæmi, til dæmis með því að draga úr hvers konar sóun og verndun umhverfis.
Með umhverfisstefnu Hótel Breiðdalsvík er markmiðið að skýra stefnu hótelsins í umhverfismálum og hvernig það lágmarkar áhrif neikvæðra umhverfisþátta í starfsemi sinni. Við gerð umhverfisstefnu var horft til gilda hótelsins; „metnaður, gleði og framúrskarandi þjónusta í sátt við umhverfið“.
Hótel Breiðdalsvík er meðvitað um að starfsemi þess hefur áhrif á umhverfið og reynir að halda neikvæðum áhrifum í lágmarki. Hótelið leggur áherslu á að vernda náttúruauðlindir með ábyrgri nýtingu orku, vatns og efna á sama tíma og viðskiptavinum er tryggð framúrskarandi þjónusta. Hótelið vinnur stöðugt að frekari umbótum í rekstri og þjónustu til að bæta frammistöðu í umhverfismálum.
Halda nánasta umhverfi aðlaðandi og ganga vel um auðlindir
Áhersla er lögð á verndun náttúrunnar um leið og viðskiptavinum er tryggður aðgangur að henni. Auðlindir eru nýttar á þann hátt að um sjálfbæra og ábyrga nýtingu er að ræða. Hótelið er í góðu samstarfi við nærsamfélagið.
Aðlaðandi nánasta umhverfi og ábyrg nýting auðlinda skiptir miklu máli til að tryggja rekstrargrundvöll hótelsins og auka fjölda gesta. Hótelið gerir út á hreina og ósnortna náttúru sem er einnig mikilvægt fyrir íbúa, önnur fyrirtæki og sveitarfélagið á svæðinu. Hótelið sýnir gott fordæmi í fegrun og umhverfisvernd á svæðinu til að virkja aðra hagsmunaaðila í nærumhverfinu til að gera slíkt hið sama.
Draga úr úrgangi og auka endurvinnslu
Aðstaða við flokkun á úrgangi er mjög aðgengileg fyrir starfsmenn og viðskiptavini. Pappír, plast, gler og spilliefni er flokkað sem sér sorp. Matarleifar og annar lífrænn úrgangur er flokkað sérstaklega. Ekki er boðið upp á einnota- eða innpakkaðar vörur ef mögulegt, umbúðanotkun er haldið í lágmarki. Starfsmenn og viðskiptavinir fá hvatningu og fræðslu um skynsamlega nýtingu hráefna. Halda skal pappírsnotknun til útprentunar í lágmarki og takmarka útsendingar á óþarfa tölvupóstum eins og hægt er.
Sér sorp og spilliefni er fargað á til þess bærum sorpstöðvum. Mikilvægt er að fræða bæði viðskiptavini og starfsfólk um skynsamlega nýtingu hráefna og endurvinnslu. Skynsamleg nýting er í senn bæði hagkvæm fyrir umhverfið og reksturinn.
Hótel Bláfell leggur ríka áherslu á endurnýtingu hráefna með því að gefa þeim annað líf í öðrum búningi. Í þeim tilfellum þegar hætt er að nota hluti þá eru hlutir gefnir áfram til þeirra sem geta notað þá. Lögð er áhersla á nýtinu auðlinda í nágrenningu til innréttinga líka og timbur frá Hallormsstað og grjót úr fjörunni til að mynda.
Velja vörur og þjónustu sem taka tillit til umhverfis
Umhverfisvottaðar vörur eru teknar fram yfir aðrar. Viðskiptavinum er boðið upp á pappírslaus viðskipti. Allt efni er notað sparlega. Sápuskammtarar eru notaðir við handlaug og sturtu. Áhersla er á að nota staðbundin hráefni og skynsöm innkaup.
Mikilvægt er að hvetja starfsmenn til að nota efni sparlega. Verðmæti felast í því að viðskiptavinir viti að hótelið leggur sitt að mörkum með skynsamlegum innkaupum því sóun ógnar umhverfinu. Það að nota efni sparlega getur lækkað innkaupakostnað hótelsins. Það að nota staðbundin hráefni og vörur lágmarkar umhverfisáhrif við framleiðslu og dreifingu.
Fylgja lögum og reglugerðum um umhverfismál að lágmarki
Öll starfsemi er í samræmi við lög og reglur um umhverfismál. Reynt er að ganga lengra en lög og reglur segja til um. Starfsemi hótelsins er í samræmi við gildandi lög og reglur um umhverfismál. Ef eitthvað út af bregður er hætta á að nærumhverfið setji sig upp á móti starfseminni sem ógnar rekstrargrundvelli. Það er hótelinu til framdráttar að viðskiptavinir og nærumhverfið viti að hótelið gengur lengra en reglur segja til um.
Draga markvisst úr orku- og vatnsnotkun
Starfsmenn eru meðvitaðir um að nýta sparlega orku og vatn í starfsemi hótelsins og hvetja viðskiptavini til að gera slíkt hið sama. Handklæði eru endurnýtt í samræmi við óskir viðskiptavina. Varmadælur eru notaðar til að spara rafmagn. Við endurnýjun eða viðhald eru settar upp LED eða sparnaðarperur og valin tæki sem eru orkunýtin.
Starfsmenn geta nýtt sparlega orku, til dæmis með því að stilla hita, slökkva ljós og hvetja hótelgesti til að nota handklæði sín oftar en einu sinni. Öll endurnýjun tækja ætti að taka mið af því að draga úr orkunotkun. Það að draga úr orku- og vatnsnotkun er ekki einungis umhverfisvænt heldur getur einnig stuðlað að lægri rekstrarkostnaði.
Mikilvægt er að starfsfólk fái fræðslu og þjálfun í umhverfisvernd og umhverfisstefnu hótelsins. Með því er umhverfisvitund þeirra efld sem er hvatning til aukins árangurs. Þannig veit starfsfólk til hvers er ætlast af þeim og geta hjálpað til við að draga úr neikvæðum áhrifum af starfsemi hótelsins á umhverfið ásamt því að stuðla að stöðugum umbótum. Því betur sem starfsfólk er upplýst því auðveldara verður fyrir þá að aðstoða viðskiptavini að taka þátt í umhverfisstefnu hótelsins.